![]() ![]() ![]() ![]() |
|
Ályktun MFÍK vegna hugsanlegrar samvinnu Íslands við ECA Þann
2. september 2010 bárust fregnir af því að Kristján Möller fyrrverandi
samgönguráðherra hefði veitt fyrirtækinu ECA Program Ltd. leyfi til að skrá
herþotur á Íslandi. Var þar fyrsta stigið skrefið í átt til þess að
fela fyrirtækinu eftirlit með lofthelgi Íslands. Samdægurs bárust þó
fregnir af því að ráðherrann hefði oftúlkað áhuga ríkisstjórnarinnar
á leyfisveitingunni og að nýskipaður samgönguráðherra, Ögmundur Jónasson,
myndi taka endanlega ákvörðun í þessu máli. Menningar-
og friðarsamtökin MFÍK hafa miklar áhyggjur af yfirvofandi leyfisveitingu og
lýsa sig andvíg allri starfsemi ECA Programs Ltd. á Íslandi. Fyrirtækið
virðist, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu þess, selja þjónustu og ráðgjöf
til áhugasamra viðskiptavina. Þá virðist engu skipta hver viðskiptavinurinn
er og í hvaða tilgangi sá ætlar að nota hina aðkeyptu þjónustu. Fyrirtækið
telst því til svokallaðra málaliðaherja (einnig kölluð einkahernaðarfyrirtæki eða þjónustufyrirtæki
við heri), þ.e. einkafyrirtækja sem selja þekkingu og kunnáttu í hernaði
til annarra aðila gegn greiðslu. Slík fyrirtæki hafa starfað við hernað
í Írak og víðar við afar slæman orðstír. Þau tengjast einnig ólöglegri
og ósiðlegri starfsemi á borð við fangaflutninga CIA í „stríðinu gegn
hryðjuverkum“. Þeirra frægast er e.t.v. Blackwater. Það heitir nú Xe
Services eftir að hafa gerst sekt um að drepa almenna borgara í Írak. Það
á einnig dótturfyrirtæki, Aviation World Services, sem hefur tekið þátt í
leynilegum fangaflutningum CIA. Þar eru fangar látnir hverfa, þeir fluttir á
laun í leynifangelsi og látnir sæta harðræði og pyntingum. Frægast slíkra
fangelsa er í herstöð Bandaríkjamanna við Guantánamo-flóa á Kúbu. Nú virðist standa til að þetta fyrirtæki starfi á Íslandi og skrái hergögn sín hér á landi í umboði ríkisstjórnarinnar, þrátt fyrir ofangreinda óvissu og ógagnsæi. Á sama tíma er milljónum á milljónum ofan veitt í að bæta ímynd landsins á erlendri grundu til að afla landsmönnum tekna af ferðaþjónustu og útflutningsvörum. Hornsteinn í ímyndarsköpuninni er hugmyndin um hina friðelskandi þjóð og þar er meint herleysi Íslands lykilatriði, sbr. t.d. ímyndarskýrslu forsætisráðuneytisins frá 2008. Það er því óneitanlega kaldhæðnislegt að ferðamannasumrinu sé ekki fyrr lokið en ríkisstjórn Íslands taki fyrsta skrefið í að samþykkja starfsemi málaliðahers, eins af tortryggilegustu hernaðarstofnunum heims, á Íslandi. Hvernig geta Íslendingar kallað sig herlausa þjóð ef ríkisstjórnin ræður málaliða til loftvarna og skráir hergögn þeirra hér á landi? Menningar- og friðarsamtökin MFÍK telja óásættanlegt að ECA Programs Ltd. eða önnur málaliðafyrirtæki fái starfsleyfi á Íslandi. Ekkert gagnsæi ríkir í starfsháttum þess og lítið vitað um starfsemina. Ef marka má reynslu annarra þjóða af málaliðafyrirtækjum hljóta slíkar ráðstafanir að teljast varhugaverðar, ef ekki beinlínis glæfralegar. Þær myndu ekki aðeins skaða orðstír landsins, heldur væri ríkisstjórnin jafnframt að leggja blessun sína yfir málaliðastarfsemi sem vitað er að tengist lögbrotum, drápum á almennum borgurum og mannréttindabrotum. MFÍK hvetur því ríkisstjórn Íslands eindregið til að neita ECA Programs Ltd. og öðrum málaliðafyrirtækjum um starfsleyfi á Íslandi. Íris
Ellenberger, september 2010. |
MFÍK /
pósthólf/box 279 / 121 Reykjavik/ email
|