Menningar- og friðarsamtökin MFÍK  

            

Forsíða               
Lög MFÍK
Um MFÍK
Aðalfundur             
8. mars
Ályktanir
Fréttabréf
Greinar
Fréttir af starfinu
Tenglar
Dansk/English/
Français
 

Annar heimur er mögulegur - European Social Forum í Málmey

Dagana 17. – 21. september var ráðstefnan European Social Forum haldin í Málmey í Svíþjóð. Ráðstefna þessi er hluti af World Social Forum og var nú haldin í fimmta sinn og í fyrsta skiptið á Norðurlöndunum. European Social Forum var fyrst haldið í Flórens árið 2002, París 2003, London 2004 og Aþenu 2006. Næst verður European Social Forum haldið í Istanbúl árið 2010.

Ráðstefnan er vettvangur fyrir félagslegar hreyfingar af allri gerð og standa að henni og taka þátt hin margvíslegustu félög, samtök og grasrótarhreyfingar. Meðal þátttakenda eru stéttarfélög, umhverfissamtök, kvennahreyfingar, friðarsamtök, mannréttindasamtök, ungliðahreyfingar og svo mætti áfram telja.  Meðal baráttumála þessara samtaka eru bætt félagsleg réttindi, jafnræði, lýðræði, mannréttindi, umhverfisvernd, réttlát vinnulöggjöf, andstaða við stríð og hervæðingu og almennt betri Evrópa og betri heimur.

Þúsundir einstaklinga sameinast á þessum fundi,  fulltrúar samtaka og hreyfinga lýsa ástandi á tilteknum málaflokki, baráttuaðferðum sínum, ósigrum og árangri. Markmiðið er að deila reynslu sinni, skiptast á skoðunum og ekki síst að ákveða næstu skref og aðgerðir. Samkvæmt heimasíðu ESF voru um 13.000 manns á ráðstefnunni í Málmey.

Þessa fimm daga sem ráðstefnan stóð var daglega boðið upp á allt að hundrað fyrirlestra og vinnustofur um hin margvíslegustu efni. Efni fyrirlestranna var skipt í tíu meginþemu en þau voru:

   

  1. Félagsleg þátttaka og réttindi, velferð, almenningsþjónusta og sameiginlegir hagsmunir.
  2. Sjálfbær heimur, óskorað vald yfir matvælum, jafnrétti í umhverfis- og loftlagsmálum.
  3. Lýðræði, jafnrétti, frelsi og réttindi minnihlutahópa.
  4. Jafnrétti, viðurkenning á fjölbreytileika, andstaða við mismunun, femínismi.
  5. Uppbygging réttlætis og friðar í Evrópu og andstaða við stríð, hervæðingu og hersetu.
  6. Réttlát vinnulöggjöf og barátta gegn arðráni.
  7. Efnahagslegt réttlæti byggt á þörfum og réttindum fólks.
  8. Aðgengi allra að þekkingu, menningu, menntun og  upplýsingum.
  9. Réttindi flóttamanna og andstaða við kynþáttafordóma.
  10. Félagslegar hreyfingar, staða og framtíð hnattrænna hreyfinga.

 

Auk fyrirlestranna var boðið upp á fjöldann allan af menningarlegum viðburðum, tónlist, leiklist, bókmenntir, barnamenningu, kvikmyndir, listsýningar og fleira. Tilgangurinn með menningardagskránni, svona fyrir utan almenna skemmtun, er m.a. að sýna margbreytileikann á þessari ráðstefnu, fjölbreytnina í baráttumálum og fjölbreyttan hóp þátttakenda.

Það var erfitt að velja úr þessari viðamiklu dagskrá, því margt áhugavert var í boði. Undirritaðar sóttu m.a. fund um baráttuna gegn einkavæðingu almannaþjónustu, um aðra möguleika í efnahagsstjórn en nýfrjálshyggju, um baráttu kvenna fyrir betri Evrópu og betri heimi, um áhrif hefða og trúar á réttindi kvenna, um rétt barna til að njóta menntunar án íhlutunar kirkjunnar auk þess að reka nefið inn á fjölmarga aðra fundi og fyrirlestra.

   
Almannaþjónusta er auður okkar

DemoMac21Á fundinum um baráttuna gegn einkavæðingu almannaþjónustu var m.a. rætt um hvernig aukin einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar í Svíþjóð hefði aukið á mismunun í samfélaginu. Þrátt fyrir að skoðanakannanir sýni að almenningur sé mótfallinn einkavæðingu almannaþjónustu halda stjórnvöld ótrauð áfram á þessari braut, þau vilja einkavæðingu og samkeppni sama hvað það kostar. Á Spáni hefur hluti af rekstri járnbrautanna verið einkavæddur og í kjölfarið hefur mörgum starfsmönnum verið sagt upp og gjöld hafa hækkað, jafnvel svo mikið í sumum tilvikum, að almenningur eða hluti almennings getur ekki nýtt sér hana. Einnig fengum við að heyra hvernig styrk samstaða ýmissa hreyfinga í Leipzig, stéttarfélaga og grasrótarhreyfinga, kom í veg fyrir að vatnsveitan væri einkavædd – í bili.  Niðurstaða fundarins var að almannaþjónustan væri okkar auður, okkar auðlind.


Nýfrjálshyggjan
Á fundinum um aðra möguleika í efnahagsstjórn en nýfrjálshyggju var hugtakið skilgreint og aðrir möguleikar ræddir. Þrátt fyrir áhugavert efni fóru fyrirlestrarnir meira og minna fyrir ofan garð og neðan vegna ýmissa tækniörðugleika.

   

Barátta kvenna fyrir bættum heimi
DemoMac12
Næstur fyrir valinu var fundur um baráttu kvenna fyrir betri Evrópu og betri heimi. Ýmsar kvennahreyfingar ræddu um aðstæður kvenna í Evrópu og nauðsyn þess að styrkja sambönd kvennahreyfinga í Evrópu, vinna saman og skiptast á skoðunum og reynslu.

   

Áhrif trúar og hefða á réttindi kvenna
Á fyrirlestri um áhrif hefða og trúar á réttindi kvenna kom í ljós að það eru ekki einungis trúarbrögð og – kenningar sem hefta réttindi kvenna heldur einnig venjur og hefðir sem erfitt er að berjast á móti. Ung stúlka frá Venesúela sagði t.d. frá því að hún hefði verið barin af föður sínum vegna þess að hún heimsótti kærasta sinn og að fjölskylda hennar teldi að stúlkan væri ekki lengur á ábyrgð fjölskyldunnar þar sem hún hefði haft mök við kærasta sinn, heldur bæri honum að hugsa um hana.

   

Réttindi barna til að njóta menntunar án íhlutunar kirkjunnar
Á fyrirlestri um réttindi barna til að njóta menntunar án íhlutunar kirkjunnar var mikið rætt um aukna íhlutun kaþólsku kirkjunnar í menntakerfi Ítalíu, Frakklands og Spánar og var hálfóhuggulegt að heyra hvaða brögðum er beitt til að koma kirkjunni að. Kirkjan virðist t.d. hafa mikil áhrif á hverjir eru ráðnir til starfa í skólum á Ítalíu.

 


DemoMac11Kröfuganga
Laugardaginn 20. september var síðan kröfuganga. Um 15.000 sameinuðust í fjögurra tíma kröfugöngu um götur Málmeyjar og endaði gangan í Pildammsparken þar sem haldnar voru ræður og boðið upp á skemmtiatriði og tónlist. Gangan var eiginlega hápunktur
ráðstefnunnar, þ.e. þar sameinaðist baráttuandi og – mál hinna fjölmörgu félagasamtaka, hreyfinga og einstaklinga sem tóku þátt í ráðstefnunni í þessari fjölmennu göngu. Hún var mikil upplifun.

 

Svona stór ráðstefna krefst óhemju skipulagningar og má segja að þeim hafi tekist ágætlega upp í Málmey, sérstaklega þegar leið á ráðstefnuna. Fjöldi einstaklinga var í sjálfboðavinnu, t.d. voru þeir sem sáu um að túlka 400 talsins.

Ráðstefnan var í heild mikil upplifun og lífsreynsla. Það var afskaplega ánægjulegt að upplifa það að fólki stendur ekki á sama, hugsar ekki eingöngu um eigin hag heldur hag heildarinnar, er tilbúið að leggja heilmikið á sig fyrir bættan heim og hefur trú á því að með samtakamætti sé hægt að gera breytingar. Ýmis félög og hreyfingar og einstaklingar ferðast langar leiðir til að taka þátt í ráðstefnu sem þessari. Við spjölluðum t.d. við konu frá Kanada og aðra frá Suður-Afríku.

Á heimasíðu ráðstefnunnar http://www.esf2008.org  er hægt að lesa um hvaða hreyfingar tóku þátt í hverju þema fyrir sig, niðurstöður, samþykktir og næstu skref.

Næst verður European Social Forum haldið í Istanbúl árið 2010. World Social Forum verður í Belem í Brasilíu á næsta ári.

Anna Sigríður Hróðmarsdóttir og Guðríður Sigurbjörnsdóttir

 

MFÍK / pósthólf/box 279 / 121 Reykjavik/ email MFÍK á Facebook