Menningar- og friðarsamtökin MFÍK  

            

Forsíða               
Lög MFÍK
Um MFÍK
Aðalfundur             
8. mars
Ályktanir
Fréttabréf
Greinar
Fréttir af starfinu
Tenglar
Dansk/English/
Français
 

Ályktun MFÍK í tilefni leiðtogafundar NATÓ í Lissabon 19. og 20. nóvember 2010

Á dögum síöflugra fréttastreymis um heiminn blasir myndin æ skýrar við: hrópleg sóun af völdum útbreiðslu og þróunar hættulegra vopna eins og kjarnorkuvopna í þágu ímyndaðra “lausna” í átakamálum. Jafnaugljóst er að heimurinn stendur andspænis margvíslegri vá í náttúru- og heilbrigðismálum og hörmulegum afleiðingum stórfelldrar og óréttlátrar misskiptingar auðs og auðlinda. En í stað þess að taka höndum saman um að leysa þessi brýnu verkefni, skipta menn liði enn á ný og stunda stríðsleiki með fjöregg þjóða að leiksoppi.

Í stað þess að viðurkenna að NATÓ missti upprunalegt hlutverk sitt þegar Varsjárbandalagið var lagt niður í kjölfar hruns Berlínarmúrs og fall Sovétríkjanna hefur mikil vinna farið í að finna kjarnorkubandalaginu ný markmið og hernaðarleg umsvif. Hergagnaiðnaðurinn kallar eftir hernaðarbandalögum og nýjum óvinum. 

Nýlegar fréttir herma að Rússar séu í þann mund að ganga til liðs við fyrrum erkióvin sinn í styrjöldinni í Afganistan. Hvað er nýtt? Átakafléttan endurtekur sig eins og hún hefur áður gert og þjóðir finna til skiptis fyrir á eigin skinni. Saklausir þjást en vopnaiðnaðurinn blómstrar. Á því verður ekkert lát fyrr en meginþorri þjóða heims sér hag sinn í því að stuðla að friði, leysa upp heri og hernaðarbandalög og snúa sér að varanlegum sigri í þágu allra.

Ísland nýtur þeirra forréttinda að vera herlaus þjóð. Hér er í augnablikinu við völd ríkisstjórn sem að minnsta kosti í orði kveðnu hafnar átökum og telur framlag þjóðarinnar eiga að vera á sviði mannréttindamála, þróunarhjálpar og friðarumleitana þjóða í milli.

Ísland hefur þó verið aðili að hernaðarbandalagi NATÓ frá 1949, eina landið innan NATÓ sem hefur engan her. Áhrifamáttur NATO er hins vegar slíkur að á tímum mikilla pólitískra og fjárhagslegra þrenginga er ætlunin að stórauka fjárframlög landsins til hernaðarbandalagsins á sama tíma og grimmt er skorið niður í menntun, heilbrigðisþjónustu og nánast allri velferðarþjónustu.

Allar aðgerðir Íslands og álit á sviði utanríkismála litast af hagsmunum NATÓ, og óþarfi hefur þótt að spyrja þjóðina álits. Nú eru umbrotatímar á Íslandi og nokkur merki þess að vitund manna um stöðu okkar í heiminum sé að vakna. Fyrir dyrum stendur endurskoðun stjórnarskrár með þátttöku almennings. En enn er okkur haldið í sömu heljargreipum. Nú síðast lásum við í fjölmiðlum fréttir þess efnis að tengsl okkar við NATÓ hafi verið styrkt í samvinnu við Kanada. Hamrað er á mikilvægi hernaðarbandalagsins, þó glæpsamlegt athæfi þess og ógöngur blasi við hverjum manni. Samkvæmt könnunum var yfirgnæfandi meirihluti íslensku þjóðarinnar á sínum tíma því mótfallin að leggja nafn sitt og samþykki við hina ólöglegu innrás í Írak en þá var þjóðin ekki heldur spurð álits. 

Menningar- og friðarsamtökin MFÍK hafa frá stofnun 1951 unnið að því að halda uppi umræðum um friðarmál og unnið gegn stríði og þátttöku í öllum hernaðarbandalögum og mun svo verða áfram.

Við krefjumst þess að Ísland hætti allri þátttöku í hernaðarbandalögum.
Við krefjumst þess að Ísland og miðin umhverfis landið sé lýst kjarnorkulaust svæði.
Við krefjumst þess að þessi ákvæði ásamt hlutleysi Íslands verði bundin í nýja stjórnarskrá.

 1. nóvember 2010
Guðrún Hannesdóttir og María S. Gunnardóttir 

MFÍK / pósthólf/box 279 / 121 Reykjavik/ email MFÍK á Facebook